ÖBí styrkir kaup á utanvegakerru
Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni festi nýverið kaup á utanvegakerru fyrir hreyfihamlaða. Kerran er sérhönnuð til nota á torfæru undirlagi og mun gera hreyfihömluðum auðveldara með að taka þátt í sömu dagskrá og aðrir gestir útilífsmiðstöðvarinnar. Sérstaklega mun hún breyta miklu fyrir börn og unglinga í skóla- og sumarbúðum.
“Þessi kerra er fyrst og fremst öflugt verkfæri sem mun gagnast þeim sem ekki eiga gott með gang eða nota hjólastóla að staðaldri. Á Úlfljótsvatni leggjum við mikla áherslu á útiveru og dagskrá í náttúrulegu umhverfi sem þýðir að við erum ekki alltaf í umhverfi sem er aðgengilegt fyrir hjólastóla til dæmis,” segir Elín Esther Magnúsdóttir, rekstrarstjóri útilífsmiðstöðvarinnar.
“Það er því sérlega ánægjulegt að geta jafnað möguleika gesta okkar til þátttöku og útiveru. Auðvitað er markmiðið að bæta aðgengi að allri starfsemi okkar og þetta er stór áfangi á þeirri vegferð.”
Öryrkjabandalag Íslands veitti styrk fyrir kerrunni sem var keypt hjá Mobility.is. “Útilífsmiðstöðin er ekki rekin í hagnaðarskyni þannig að styrkir á borð við þann sem ÖBÍ veitti okkur skipta höfuðmáli í verkefnum eins og þessu, en um er að ræða verkefnið Aðgengi fyrir öll. Án þeirra væri ekki svigrúm til svona úrbóta og kunnum við ÖBÍ miklar þakkir fyrir.”
Þá hrósar Elín einnig þjónustunni hjá Mobility.is: “Svanberg og Siggi hjá Mobility voru okkur stoð og stytta í að velja hentuga kerru og afhentu hana núna í byrjun desember. Það má því segja að þetta sé óvænt jólagjöf. Við vitum líka að við erum í góðum höndum hjá þeim þegar kemur að viðhaldi og aukabúnaði ef á þarf að halda.”