Skátar og Landsvirkjun vinna að grænni heimi

Home 

Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og Landsvirkjun hafa ákveðið að halda samstarfi sínu áfram næstu fimm árin. Sem fyrr verður megináherslan á betri framtíð með aukinni sjálfbærni. Í samkomulaginu felst að Landsvirkjun leggur til ýmsa aðstöðu og aðgang að fræðslu orkusýningarinnar i Ljósafossstöð. Skátarnir skipuleggja fræðslu um orkumál fyrir íslenska nemendur og erlenda skáta, auk ýmissa tækifæra til útivistar í samstarfi við Landsvirkjun.

 Mynd: Rita Osório / Skátarnir

Útilífsmiðstöðin og Landsvirkjun hafa átt gott og fjölbreytt samstarf frá 2015. Ýmis verkefni hafa setið á hakanum undanfarin misseri vegna heimfaraldursins en nú er skátum og orkufyrirtæki þjóðarinnar ekkert að vanbúnaði að halda áfram þar sem frá var horfið. Sem fyrr eru samningsaðilar báðir sannfærðir um að samstarfið efli samfélagið til lengri tíma.

Landsvirkjun og Útilífsmiðstöð skáta eiga það sameiginlega markmið að vilja bæta framtíðina með aukinni sjálfbærni. Landsvirkjun setur sér markmið um sjálfbæran heim knúinn endurnýjanlegri orku og á Úlfljótsvatni leggja skátar áherslu á fræðslu um útiveru og gildi hennar fyrir komandi kynslóðir. Samstarfið hefur komið báðum vel og ljóst að svo verður áfram.

Þúsundir fræðast

“Á hverju ári störfum við með um 1200 íslenskum nemendum og um 800 erlendum skátum. Það þýðir að á fimm ára samningstíma munu 10 þúsund einstaklingar fræðast um vinnslu á hreinni, endurnýjanlegri orku og grænni framtíð jarðarinnar. Þegar við náum til svo margra getur það haft stórkostleg áhrif á samfélagið. Þetta gætum við ekki gert án samstarfsins við Landsvirkjun. Samfélagsvitundin sem sameinar okkur, landið sem við deilum og auðlindirnar sem við viljum vernda eru grundvöllur mikils árangurs. Við erum ævinlega þakklát fyrir það,”
segir Javier Paniagua Petisco, framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.

 Mynd: Rita Osório / Skátarnir

Viljum vera góður granni

„Við hjá Landsvirkjun leggjum mikla áherslu á að orkufyrirtæki þjóðarinnar sé góður granni. Samstarfið við Útilífsmiðstöðina hefur verið afar farsælt á undanförnum árum. Við eigum margt sameiginlegt í áherslum okkar á sjálfbærni, í umhverfismálum og í fræðslu um orku- og loftslagsmál. Með áherslu okkar á sjálfbæran heim knúinn endurnýjanlegri orku getum við gert heiminn grænan saman,”
segir Matthildur María Guðmundsdóttir, stöðvarstjóri Landsvirkjunar á Sogssvæði.

 
 
 
Myndatexti:
Matthildur María Guðmundsdóttir, stöðvarstjóri Landsvirkjunar á Sogssvæði, Javier Paniagua Petisco, framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni og Helen Garðarsdóttir, sérfræðingur á sviði samfélags og umhverfis, handsala samning um samstarf næstu fimm árin.