Home 

Listin á bakvið skipulagða óreiðu

eftir Hrafnkel Úlf

Það að skipuleggja skátamót eða jafnvel einungis litla skátaútilegu getur verið flókið verk. Maður þarf að finna hina fullkomnu dagsetningu, hina fullkomnu staðsetningu, hið fullkomna veður og skipuleggja hina fullkomnu dagskrá. Klikki einhver af þessum fjórum þáttum er hætta á því að allt fari úrskeiðis og að þetta verði skrásett í sögubækurnar sem eitt versta mót eða versta útilega allra tíma.

En hvað með að horfa á þetta öðrum augum? Væri mögulega hægt að finna annað sjónarhorn á þetta allt saman í kvikmyndagerð? Þegar það kom að kvikmyndagerð taldi einn merkasti leikstjóri allra tíma, Orson Welles, að skipulag skipti höfuðmáli. Á tökudögum var hann oft langt fram á nótt að vinna í ýtarlegum plönum fyrir morgundaginn, hvað hann ætlaði að gera með leikurunum, hvernig hann ætlaði að taka upp skotin sín, hvernig hann ætlaði að láta þetta allt passa inn í klippið á myndinni og svo framvegis. Svo daginn eftir las hann einu sinni yfir þau yfir morgunkaffinu og henti þeim svo í ruslið, lítandi aldrei á þau aftur. Hugmynd hans verandi sú að plön væru í raun einskis virði, en það að hafa planað væri í raun það sem skipti höfuðmáli. Hér höfum við þá ákveðna skipulagða óreiðu þar sem allt er mögulegt.

Væri hægt að færa þetta viðhorf yfir í skipulag á skátamótum og útilegum? Við erum upp alin við að plana, gera og meta, en hvað ef við tökum þessa hugmynd Welles og bætum við fleiri skrefum inn í ferlið? Breytum þessu í plana, henda planinu í ruslið, gera, spila af fingrum fram og að lokum meta. Það er vissulega ákveðin list sem felst í því að dansa á þessari hárfínu línu á milli skipulags og óreiðu, en sé dansað á henni réttu sporin er allt mögulegt.

Þetta þýðir samt ekki að hægt sé að hunsa það að skipuleggja skátamótið og útileguna í von um að þetta reddi sér allt bara af sjálfu sér, heldur felst þetta einmitt í andstæðu þess, þar sem að skipulagið og það að sleppa tökum á skipulaginu og leyfa mótinu eða útilegunni að einfaldlega gerast og grípa öll þau tækifæri sem myndast í því ferli og spila með það líka. Eitthvað sem er afar erfitt að gera ef alltaf er haldið rembingsfast í upprunalega skipulagið. Þetta þýðir ekki heldur að hægt sé að hunsa ákveðna hluti í skipulaginu eins og matmálstíma. Morgunmatur verður að vera á morgnana og kvöldkaffi alltaf eftir kvöldvökuna eða næturleikinn.

Við lestur á þessari grein rifjast örugglega upp minningar hjá þér lesandi góður af móti eða útilegu þar sem þessi dans er dansaður og eru það yfirleitt þau augnablik sem eru hvað eftirminnilegust. Hver man eftir þeim félagsútilegum þar sem ekkert tjald féll niður? Hver man eftir þeim Viðeyjarmótum þar sem hver einasti dagskrárliður gekk upp? Hver man eftir þeim landsmótum þar sem veðrið var gott allan tímann? Enginn.

Þannig að næst þegar þú ert að skipuleggja skátamót eða útilegu, eða jafnvel bara eitthvað allt annað, íhugaðu að skipuleggja í þaula, en að henda svo planinu í ruslið og vera með það einungis í hausnum á þér og þínum samsjálfboðaliðum og skipuleggjendum og spila á mótið líkt og þið séuð vel æft kvikmyndagerðarteymi. Þannig að eftir hverju ertu að bíða?