Að nýta sumarfríið til skátastarfs

Home 

Eins og kýr að vori flykkjast börnin úr skólastofunum í júníbyrjun, teyga vorloftið og snúa ekki aftur í skólann fyrr en eftir miðjan ágúst. Það er því nægur tími framundan til að leita ævintýra og læra nýjan leik, enda hafa börn oft stækkað um nokkrar fatastærðir þegar þau snúa aftur í skólann á haustdögum. En hvernig geta börn varið tíma sínum fram að skólasetningu?

Oft er talað um að aðgengi að afþreyingu í tölvu og sjónvarpi hafi aldrei verið jafn mikið og nú, og að með tilkomu tímaflakks þurfi ekki einu sinni að bíða eftir barnatímanum. Stærsti leikvöllurinn er hins vegar úti við, og sennilega hefur aldrei verið eins mikilvægt fyrir börn og ungmenni að geta verið í snertingu við náttúruna. Náttúran er nefnilega endalaus uppspretta afþreyingar og ævintýra, en að því sögðu þá gefur hún okkur líka færi á að láta okkur leiðast og vita ekki alveg hvað “á að gera næst”, og við slík tækifæri verða einmitt til hinir skemmtilegustu leikir, beint úr hugarfylgsnum barnanna. Náttúran leyfir okkur líka það sem er svo dýrmætt: að gleyma okkur.

Það er því engin tilviljun að náttúra og útilíf eru einn af lykilþáttum skátastarfs. Á sumrin gefst börnum, sem ekki eru skátar, ýmis frábær tækifæri til að kynnast skátastarfi og útilífi. Í ýmsum hverfum er boðið upp Útilífsskólann en hann er sumarnámskeið sem skátafélögin hafa umsjón með fyrir öll börn á aldrinum 8-12 ára, hvort sem þau eru skátar eður ei. Eins og nafnið gefur til kynna, er mikil áhersla lögð á útilíf á námskeiðunum, og börnin fá að reyna fyrir sér í klifri, fara í hjólaferðir, læra að tálga og fleira.

Á sumrin eru Sumarbúðir skáta starfræktar á Úlfljótsvatni. Þar koma einnig saman börn sem ýmist eru skátar eða ekki. Eins og í Útilífsskólanum er útilífi gert hátt undir höfði: sumarbúðabörnin róa á bátum úti á vatni, klifra í klifurturni, fara í gönguferðir og leiki. Á kvöldin taka síðan við æsispennandi næturleikir og ljúfar kvöldvökur í Undralandinu. Mörg hver eru að gista í fyrsta skipti annars staðar en með foreldrum sínum, og það í sjálfu sér er mikið ævintýri.

Dagana 12. – 16. júlí 2023 verður skátamótið Skátasumarið haldið á Úlfljótsvatni en mótið sækja skátar á aldrinum 7-18 ára ásamt foringum sínum. Á nokkrum dögum byggist upp lítið þorp þar sem allir þurfa að hjálpast að við að elda matinn, vaska upp, halda tjaldbúðinni snyrtilegri og klæða sig eftir veðri. Það besta er að almenningur getur verið með í ævintýrinu með því að tjalda í fjölskyldubúðum mótsins. Þau sem gista í fjölskyldubúðum geta tekið þátt í ákveðnum dagskrárliðum mótsins og þannig fengið skátastarfið beint í æð.

Mörg börn gerast skátar eftir að hafa kynnst skátastarfi í gegnum Útilífsskólann, Sumarbúðir skáta eða eftir að hafa dvalið í fjölskyldubúðum skátamóta, en í öllu falli fá börnin líka bara að njóta útiveru, félagsskaps við önnur börn og að efla sjálfstæði sitt á þessum vettvangi sem sumarskátastarf er. Sumarið er því frábær tími til að fá smjörþefinn af skátastarfi þar sem hægt er að gleyma sér úti í náttúrunni, uppi á fjalli eða niðri við vatn, njóta þess að liggja í tjaldi, heyra himbrimans söng og hrossagauksins hnegg, og vera hér og nú.

 

Texti: Védís Helgadóttir
Ljósmynd: Rita Osório