Home Umhverfisstefna Úlfljótsvatns

Umhverfismál hafa alla tíð verið mikilvægur hluti af starfsemi Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni. Umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni er enda stór þáttur í starfsemi skátanna. Skátalögin segja meðal annars: „Skáti er náttúruvinur“ og í framtíðarsýn Útilífsmiðstöðvarinnar til 2020 segir að Úlfljótsvatn skuli vera sjálfbær staður og þar sé græna hliðinn alltaf upp. Það er því ljóst að umhverfismál eru snar þáttur í allri starfsemi miðstöðvarinnar.

Eftirfarandi er umhverfisstefna Útilífsmiðstöðvarinnar:

LoftmyndirStefnumótun og starfshættir

Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni er í eigu Bandalags íslenskra skáta og Skátasambands Reykjavíkur. Miðstöðin hefur verið starfrækt síðan 1940 með mismunandi áherslum. Síðustu ár hefur aukinn áhersla verið á að þjónusta almenning og erlenda skátahópa sem og ungmenni almennt, t.d. í gegnum skólabúðir og sumarbúðir. Áherslur á verndun umhverfisins hafa alla tíð verið fyrirferðarmiklar í starfsemi miðstöðvarinnar sem og í starfsemi skáta almennt en eitt af skátlögunum segir: „Skáti er náttúruvinur“. Útilífsmiðstöðin hefur alla tíð verið rekin með þau sjónarmið í forgrunni og hefur meðal annars tekið þátt í umhverfisverkefnum og staðið fyrir kraftmikilli skógrækt í samstarfi við Skógræktarfélag skáta og nú Skógræktarfélag Íslands.

Framtíðarsýn Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni til 2020 segir:

 • Úlfljótsvatn býður alla velkomna til að njóta upplifunar sem byggir á skátaaðferðinni á sjálfbærum stað.
 • Úlfljótsvatn er þekkt fyrir fjölbreytni í dagskrá og aðstöðu þar sem ólíkir hópar geta fundið skemmtilega og ögrandi upplifun í einstakri náttúru.
 • Jafnvægi náttúru, fjármála og menningar er löngu orðið þekkt og erlendir jafnt sem innlendir einstaklingar leita til Úlfljótsvatns til að bæta við þekkingu og skilning á þeirri jafnvægislist sem stunduð er hjá okkur.
 • Á Úlfljótsvatni er græna hliðin alltaf upp.

Það er því yfirlýst markmið miðstöðvarinnar að haga allri sinni starfsemi þannig að hún sé sjálfbær og í sátt við náttúruna. Það er jafnframt markmið skátanna og þar með miðstöðvarinnar að efla skilning og þekkingu bæði starfsfólks og gesta á umhverfismálum og sjálfbærni.

Leiðir að þessum markmiðum felast meðal annars í stöðugri endurskoðun þeirra og rýni. Leitast er við að virkja allt starfsfólk Útilífsmiðstöðvarinnar í þessu ferli sem og að kynna umhverfismarkmið og stefnu fyrir því og gestum miðstöðvarinnar.

Fræðsla er snar þáttur í allri starfsemi miðstöðvarinnar enda er hlutverk skátahreyfingarinnar að efla ungt fólk og fræða það. Þetta endurspeglast í viðleitni miðstöðvarinnar til þess að fræða starfsfólk og gesti og efla umhverfisvitund þeirra.

Frammistaða miðstöðvarinnar er metin árlega og það mat er birt í ársskýrslu hennar. Stefnt er að því að bæta þar inn umhverfisviðmiðum og mati árið 2018.

Innkaupastefna

IMG_3763-001Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni hefur það að markmiði að vera sjálfbær og umhverfisvæn skátamiðstöð. Stór liður í vistspori miðstöðvarinnar eru innkaup hennar í tengslum við rekstur og uppbyggingu. Innkaupastefnan segir til um það hvernig haga skal innkaupum til að valda sem minnstum skaða á náttúrunni og umhverfinu.

 • Við innkaup skal leitast við að velja þann kost sem að er bestur fyrir umhverfið. Athugið að oft getur besti kosturinn verið að kaupa ekki.
 • Ávallt skal meta langtímaáhrif innkaupa s.s. við kaup á nýjum tækjum. Oft getur umhverfiskostnaður og raunkostnaður verið minni við það að kaupa búnað eða tæki sem endist lengur og/eða krefjast minna viðhalds.
 • Haga skal pöntunum og skipulagi þeirra þannig að ferða- og flutningskostnaður sé lágmarkaður.
 • Haga skal pöntunum og vörukaupum þannig að umbúðum sé haldið í lágmarki, s.s. með því að kaupa hrávöru í meira magni eða velja vörur sem að koma styttra að og þurfa því minni umbúðir.
 • Ávallt skal kaupa umhverfisvottaðar vörur sé þess nokkur kostur.
 • Ávallt skal nota vistvæn efni við framkvæmdir sé þess nokkur kostur.
 • Leitast skal við að kaupa vörur úr héraði sé það hægt.
 • Leitast skal við að kaupa vörur sem að vottaðar eru vegna sanngjarnara viðskiptahátta.
 • Leitast skal við að minnka kaup og notkun einnota vara þar sem það er hægt.

Orka og orkunotkun

Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótvatni nýtir rafmagn og heitt vatn sem orkugjafa ásamt þeim orkugjöfum sem notaðir eru á farartæki og vinnuvélar miðstöðvarinnar. Ávallt er stefnt að því að minnka orkunotkun og spara orku þar sem það er hægt. Þetta er meðal annars gert með því að kaupa orkusparandi tæki og búnað við endurnýjun og nota tæki skynsamlega.

Sérstaklega er horft til flutnings á vörum og ferða starfsmanna til og frá Úlfljótsvatni. Ávallt er leitað leiða til að leysa þessi verkefni á sem hagkvæmastan hátt, t.d. með því að hvetja starfsmenn til að fara til og frá vinnu saman, ganga frekar en keyra innan svæðis og nota farartæki almennt sparlega. Þá er ávallt reynt að samnýta þær ferðir sem að þarf að fara, t.d. eftir vörum eða búnaði.

Ökutæki og vélar fá reglulegt viðhald og ávallt eru keypt tæki sem eru í sparneytnum orkuflokkum sé þess nokkur kostur.

Úrgangur og sorpmál

Útilífsmiðstöðin hefur alla tíð reynt að draga úr myndun úrgangs. Óhjákvæmilega fellur til úrgangur við rekstur og uppbyggingu, ávallt er reynt að flokka þann úrgang eftir bestu getu.

Skátarnir reka endurvinnslufyrirtækið Græna skáta sem að sér um endurvinnslu á drykkjarumbúðum. Skátar hafa raunar verið í fararbroddi hvað þetta varðar í yfir 20 ár. Úlfljótsvatn er engin undantekning þar og hefur alla tíð hvatt bæði starfsfólk og gesti til að flokka og skila skilagjaldsskyldum umbúðum. Boðið er upp á slíka flokkunaraðstöðu á fjölmörgum stöðum.

Útilífsmiðstöðin hefur um árabil keypt sérstaka þjónustu af gámafyrirtækjum til að geta flokkað umfram það sem að sveitarfélagið býður upp á. Í dag er þessi þjónusta keypt af Gámaþjónustunni sem útvegar gám undir flokkaðan úrgang og sér um að koma honum á leiðarenda.

Flokkað er í eftirfarandi flokka:

 • Bylgjupappi
 • Flatur pappi og pappír
 • Plast
 • Málmur
 • Skilagjaldsskyldar umbúðir
 • Rafhlöður
 • Spilliefni
 • Gaskútar og sambærilegt
 • Almennt sorp

Á stórmótum er gestum jafnframt boðið að flokka lífrænan úrgang.

Öllu sértæku sorpi, s.s. raftækjum, lyfjum og spilliefnum er komið á endurvinnslustöðvar þar sem það er flokkað.

Útilífsmiðstöðin reynir einnig eftir fremsta megni að leita til nærsamfélagsins eftir aðföngum, s.s. húsgögnum eða öðru slíku. Undanfarin ár hefur hún notið aðstoðar banka og annarra stofnana sem hafa lagt henni til skrifborð, stóla og annan búnað.

Mikilvægur þáttur í starfseminni hefur alla tíð verið að fræða starfsfólk og gesti um flokkun og umhverfismál. Slíkt er t.d. alltaf á dagskrá í skólabúðum og sumarbúðum ásamt því að á tjaldsvæðinu eru gestir hvattir til að flokka.

Náttúruvernd

IMG_0848-700x466Síðan skátar námu land að Úlfljótsvatni árið 1940 hefur eitt af þeirra aðal verkefnum verið landgræðsla og skógrækt. Á því tímabili hafa skátar gróðursett tugir þúsunda trjáa ásamt því að vinna markvisst í rofvörnum á jörðinni. Í dag er jörðin Úlfljótsvatn í eigu skátanna og Skógræktarfélags Íslands sem meðal annars stendur fyrir ræktun Kolviðarskógar sem ætlaður er til að kolefnisjafna útblástur fyrirtækja.

Líkt og sorpmál eru fráveitumál í stöðugri endurskoðun. Settar hafa verið niður nýjar rotþrær samkvæmt gildandi stöðlum og þess er vel gætt að ekkert fari í þær þrær sem ekki á að fara þangað.

Umferð um viðkvæm svæði er takmörkuð við vegi og slóða sem þola slíka umferð. Viðkvæmir vegir eru lokaðir yfir vetrarmánuðina þar sem þeir verða mjúkir í mikilli bleytu. Allur utanvegaakstur er kærður til lögreglu.

Fiskirannsóknir hafa lengi verið stundaðar í Úlfljótsvatni. Veiðimenn eru hvattir til að skrá allan afla í Útilífsmiðstöðinni en starfsfólk hennar sér um veiðivörslu á Úlfljótsvatnsjörðinni. Framkvæmdarstjóri miðstöðvarinnar hefur einnig setið í stjórn Veiðifélags Úlfljótsvatns. Það er markmið miðstöðvarinnar að taka þátt í starfi samtaka á sviði náttúrverndar eftir því sem að það er hægt, s.s. í veiðifélaginu og með því að styðja við starfsemi annara, t.d. með aðstöðu eða annarri aðstoð.

Útilífsmiðstöðin er í eigu Skátahreyfingarinnar sem hefur allt frá stofnun verið virk í náttúruvernd og fræðslu um náttúrvernd. Miðstöðin tekur þátt í því starfi eftir því sem kostur er.

Unnið er að þéttingu göngustíganets á Úlfljótsvatnsjörðinni. Það net tengist einnig gönguleiðum um Hellisheiði og Hengil sem að Orka náttúrunnar á og heldur við. Það er markmið eigenda Úlfljótsvatns jarðarinnar að þétta þetta net samfara aukinni skógrækt á svæðinu og gera það þannig aðgengilegt fyrir almenning sem spennandi útivistarsvæði.

Samfélagið og Úlfljótsvatn

Útilífsmiðstöð skáta hefur síðan um aldamót verið opin almenningi. Rekið er öflugt almenningstjaldsvæði með áherslu á fjölskylduna, ásamt hosteli sem er opið almennum ferðamönnum. Tekið er á móti hópum en sérstök áhersla er á æskulýðshópa og ekki er gerður sérstakur greinarmunur á því hvort að um skátahópa eða aðra æskulýðshópa er að ræða.

Útilífsmiðstöðin hefur lagt sig fram um að taka þátt í verkefnum á svæðinu, s.s. Grímsævintýri og Borg í sveit. Miðstöðin hefur einnig verið nágrönnum innan handar, t.d. með því að hjálpa til við starfsmannadaga hjá Landsvirkjun. Miðstöðin hefur gert samstafssamninga við Landsvirkjun og Reykjavíkurborg og á í góðu langtímasamstarfi við Tómstundafræðasvið Háskóla Íslands. En nemendur þaðan nota aðstöðuna til útivistarþjálfunar.

Útilífsmiðstöðin hefur einnig verið skólum og öðrum stofnunum til ráðgjafar, t.d. um uppsetningu útieldunarsvæða eða þróun útikennslu.

Miðstöðin er félagi í Markaðsstofu Suðurlands og sækir þangað upplýsingar og stuðning. Miðstöðin hefur meðal annars tekið á móti fulltrúum ferðaþjónustuaðila á svæðinu og farið í kynningar til annarra ásamt því að taka þátt í Mannamótum markaðsstofanna í Reykjavík.

Birgjar og Markaður

IMG_2227Útilífsmiðstöðin hefur undanfarin ár reynt eftir megni að skipta við birgja sem geta boðið umhverfisvænar vörur. Ávallt er óskað eftir því að birgjar útvegi umhverfisvænar vörur sé þess nokkur kostur.

Miðstöðin hefur undnafarin ár kannað væntingar og ánægju viðskiptavina, t.d. með könnunum á tjaldsvæði og endurmati í skólabúðum. Markmið þessara kannan er að gera starfið betra og þróa þær vörur sem í boði eru.

Viðskiptavinir og umhverfið

Skátahreyfingin hefur alla tíð varið miklum kröftum í að uppfræða skjólstæðinga sína um mikilvægi náttúrunnar og náttúruverndar. Starfsemi Útilífsmiðstöðvarinnar tekur að sjálfsögðu mið af þessu og reynir eftir megni að fræða gesti sína. Umhverfisfræðsla er t.d. stór hluti af skólabúðum og sumarbúðum. Almennir gestir eru einnig hvattir til að flokka og aðstaða til þess er til staðar.

Erlendir gestir eru hvattir til að drekka og nota kranavatn. Ekki er boðið upp á gos í skóla- og sumarbúðum heldur aðeins kranavatn og djús.

Áhersla er lögð á að upplýsa viðskiptavini um umhverfismál miðstöðvarinnar s.s. flokkun, umhverfisvernd almennt og almennar áherslur. Það er gert í gegnum þá dagskrá sem í boði er og með tilheyrandi skiltum og upplýsingaefni.