Heim Uncategorized Skátamótin í sumar

Skátar halda í sumar fimm stórmót og fyrir marga eru þau hápunktur skátastarfsins. Fyrstu mótin verða haldin um næstu helgi og síðan er nóg um að vera fram að Landsmóti skáta á Akureyri sem haldið verður í júlí.  Tvö mót eru um næstu helgi: Vormót Hraunbúa er haldið í Krísuvík og drekaskátar safnast saman á Úlfljótsvatni.

Sápurennibraut á þriggja Richtera skátamóti

Vormót Hraunbúa í Krísuvík er árvisst um Hvítasunnuna og er þetta í 74. skipti sem  skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirða standa fyrir mótinu. Þema mótsins er „Þrír á Richter“ sem táknar bæði jarðfræðilega virkni á svæðinu og það dúndrandi fjör sem verður undir Bæjarfelli um Hvítasunnuna.

María Björg Magnúsdóttir mótsstjóri segir að dagskráin sé sniðin fyrir fálka og dróttskáta.  „Póstaleikir, útieldun, sig í klettum, FlyFox, skyndihjálp og svo er sápurennibrautin alltaf vinsæl,“ segir María Björg. Kvöldvaka er á sunnudeginum og hún er opin fyrir alla eins og ávallt. María segir að margir eldri Hraunbúar geri sér ferð til Krísuvíkur á kvöldvökuna og njóti stemningarinnar. Ingó veðurguð verður á tónleikum á laugardagskvöld og segir María þá hafa verið vel heppnaða í fyrra.

Fjölskyldubúðir eru í tengslum við mótið og þar eru dagskráratriði fyrir yngri krakka. María segir að í fyrra hafi verið um 200 manns á svæðinu, en að mögulega verði færri núna þar sem Landsmót skáta er í ár.

Margir Drekar á sínu fyrsta móti

Um helgina  verður einnig haldið Drekaskátamót, en það er fyrir yngstu skátana sem eru á aldrinum 7 – 9 ára. Í mörgum tilvikum hefur undirbúningur fyrir mótið staðið í allan vetur, en margir hinna ungu skáta eru að fara á sitt fyrsta skátamót. Mótið er haldið á Úlfljótsvatni sem býður upp á margvíslega möguleika svo sem vatnasafarí og klifurvegg. Þá verður grillað og kvöldvakan er á sínum stað. Ásta Guðný Ragnarsdóttir mótsstjóri gerir ráð fyrir að um 300 skátar komi saman á Úlfljótsvatni, en auk drekaskátanna er góður hópur foringja og annarra sem halda utan um dagskrá og margvísleg praktísk mál.

Tjaldsvæðið á Úlfljótsvatni er opið almenningi þessa helgi og segir Ásta Guðný tilvalið fyrir foreldra sem og aðra að skunda á Úlfjótsvatn og sjá stemninguna sem myndast á svona móti.

Viðeyjarmótið hitar upp fyrir Landsmótið

Síðar í júní stendur Skátafélagið Landnemar fyrir sínu hefðbunda Landnemamóti í Viðey. Það er opið öllum skátum á landinu, en þátttaka skátanna er bundin við að skipulögð fararstjórn sé frá skátafélaginu. Haukur Haraldsson Landnemi gerir ráð fyrir að þátttaka verði svipuð og í fyrra, en þá sóttu 200 skátar Viðey heim.  Auðvelt er að sækja mótið og ferðakostnaður er í lágmarki en ferjuferðir eru úr Sundahöfn á vegum mótsins. Haukur segir að  öðrum kostnaði sé einnig haldið í lágmarki þar sem Landsmót verður síðar á árinu.

Viðeyjarmótið er sett föstudagskvöldið 20. júní  kl. 22 við Fjörueld og á laugardegi verður Fjöruballið óviðjafnanlega. Dagskrá mótsins tekur mið af Landsmóti skáta og undirbýr skátana fyrir það stóra ævintýri.

Kósý mót fyrir 40 ára og eldri

Síðustu helgina í júlí verður 40+ Landsmótið haldið öðru sinni og er gert ráð fyrir betri þátttöku en í fyrra, því eins og segir í kynningu mótsins fréttu margir ekki af mótinu fyrr en það var afstaðið. Nú hefur mótið verið kynnt betur. Dagskráin verður að sögn mótshaldara svipuð og í fyrra. Boðið verður upp á fjölda gönguferða, golfvöllurinn er opinn og einnig verður haldið Íslandsmeistaramót í Folfi sem er Frisbeegolf, en á Úlfljótsvatni er einn elsti Folf-völlur landsins.

Mótið er fyrir þá sem náð hafa fertugsaldri eða sambærilegum þroskamörkum. Mótshaldarar hvetja alla til að láta gömlu skátafélagana vita og fjölmenna austur á Úlfljótsvatn síðustu helgina í júní.

Mótasumarið nær hápunkti með Landsmóti skáta á Akureyri

Stærsta mót sumarsins er svo  Landsmót skáta sem í ár er haldið á Akureyri og stendur í eina viku, frá 20. – 27. júlí. Gert er ráð fyrir um 1.250 þátttakendum og eru yfir 500 erlendis frá. Einnig má búast við góðri þátttöku í fjölskyldubúðum.

Mikil stemning er í vinnuhópum fyrir Landsmóti skáta og hittast stórir og smáir hópar reglulega til  að undirbúa mótið. Við hér á Skátamálum munum fylgjast með því.

Nánari upplýsingar um mótin má finna hér.

NO COMMENTS