Heim Forsíðubox Alltaf verið fjölskyldutjaldsvæði

Allir eru velkomnir á Úlfljótsvatn

„Tjaldsvæðið er og hefur alltaf verið fjölskyldutjaldsvæði. Dagskrá og þjónusta hefur miðast við að fjölskyldur geti notið þess dvelja á staðnum og hér er nóg við að vera. Verðskráin er einnig fjölskylduvæn og í ár stigum við það skref að fella niður gistigjöld fyrir börn. Núna gista börn undir 16 ára aldri frítt á tjaldsvæðinu. Við vonum að þetta verði til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur,“ segir Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.

Líf og fjör á Úlfljótsvatni

Líf og fjör á Úlfljótsvatni

Tjaldsvæðið á Úlfljótsvatni var opnað um síðustu helgi. Sturtur og salernishús eru komin í gagnið og þjónustumiðstöðin sömuleiðis. Guðmundur segir að vöruúrvalið  í þjónustumiðstöðinni hafi verið bætt, sérstaklega hvað varðar veiðivörur. „Nú bjóðum við upp á gott úrval af spúnum og veiðivörum fyrir silungsveiðina en hún hefur verið með besta móti undanfarin ár,“ segir hann.

Bátaleiga, klifurturn og viðburðir um helgar

Margvísleg afþreying er fyrir gesti tjaldsvæðisins. Áfram verður boðið upp á bátaleigu og ferðir í stærsta klifurturn landsins. Guðmundur segir að í sumar verði bryddað upp á nýjum þáttum og unnið er að því að setja saman viðburði hverja helgi. Meðal nýjunga er þríþrautarkeppni Úlfljótsvatns sem fer fram 21. júní. Starfsfólkið hefur einnig verið að vinna að því að innleiða bogfimi á svæðinu þannig að tjaldgestir geti prófað að taka í boga en það yrði að sjálfsögðu undir handleiðslu sérfræðinga.

Guðmundur segir að tjaldflatirnar séu að taka við sér eftir veturinn en hann var sérstaklega erfiður með tilliti til klaka og verður fyrst í stað að takmarka aðgang inn á nokkrar flatir, en þar sem svæðið er stórt kemur það ekki að sök. „Við erum þó mjög bjartsýn á að sumarið verði gott og að grasflatirnar verði tilbúnar fyrir fjölda fólks í sumar,“ segir Guðmundur.

 

NO COMMENTS