Skátarnir
Home Archives 2015

Yearly Archives: 2015

Úlfljótsvatn er eitt fallegasta tjaldsvæði landsins. Alltaf nóg pláss. Rafmagn á svæðinu ásamt fríum sturtum.

Allir eru velkomnir til okkar á Úlfljótsvatn enda hefur verið rekið hér almenningstjaldsvæði í 15 ár.

Dagskrá fyrir börnin um helgar. Þar er boðið upp á bogfimi, klifur í stærsta klifurturni landsins og auðvitað er bátaleigan opin ef að það viðrar vel til þess.

Svæðið er opið í allt sumar og við tökum vel á móti þér.

Frekari upplýsingar má fá á facebook síðunni okkar með því að smella hér

Svo skemmir ekki fyrir að þegar þú gistir í Undralandinu Úlfljótsvatni ertu að styðja við æskulýðsstarf í landinu.

Sjáumst í sumar!

Samkomulag um samstarf Úlfljótsvatns og Björgunarfélags Árborgar var undirritað á Úlfljótsvatni í byrjun maí. Samkomulagið felur í sér margvíslega aðkomu björgunarfélagsins að þjálfun starfsmanna og sjálfboðaliða sem vinna á Úlfljótsvatni.
„Þetta er mikilvægt skref í endurskipulagningu öryggismála hjá okkur á Úlfljótsvatni,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri. „Á Úlfljótsvatni hefur alltaf verið lagt mikið upp úr því að skátar og aðrir
gestir geti stundað útivist og ævintýradagskrá við öruggar aðstæður. Með aukinni vitundarvakningu á heimsvísu um öryggismál í þeim geira mun krafan um vottun og aðkomu fagmanna að þjálfun starfsmanna aukast á næstu árum.“

Reyndir leiðbeinendur í bakgarðinum
„Innan Björgunarfélags Árborgar starfa reyndir leiðbeinendur sem aðstoða okkur við þjálfun starfsfólksins, auk þess sem við fáum að sitja námskeið hjá félaginu sem tengjast okkar starfi. Allt hjálpar það okkur að auka gæðin í starfi okkar,“ segir Guðmundur og bætir við: „Þetta er vonandi bara upphafið að góðu samstarfi við þessa öflugu björgunarsveit sem er nánast í bakgarðinum hjá okkur.“

Menntun og öryggi í skiptum fyrir hópefli
Mótframlag Úlfljótsvatn er afnot af aðstöðu og þjónustu á Úlfljótsvatni.
„Við erum mjög ánægð með að fá að starfa með Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni,“ segir Hjörtur Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar.
„Við getum með okkar framlagi aukið menntun þeirra sem starfa á svæðinu, og öryggi fólks á svæðinu, og fáum í staðinn afnot að aðstöðu sem við getum nýtt fyrir innra starf félagsins og hópefli, sem skiptir gríðarlega miklu máli í svona sjálfboðaliðastarfi.“

Undirritað í átta metra hæð
Eins og við er að búast var samkomulag útilífsmiðstöðvarinnar og björgunarfélagsins ekki bara undirritað við skrifborð, því Guðmundur og Tryggvi fóru líka með pappíra upp í klifurturninn á Úlfljótsvatni og skrifuðu undir annað eintakið í átta metra hæð, hangandi í siglínum.
Samstarfið er þegar hafið, enda þjálfun starfsfólks og sjálfboðaliða fyrir sumarið í fullum gangi.