Skátarnir
Home Archives 2014 október

Monthly Archives: október 2014

  Það er ekki á hverjum degi sem íslenskir skátar læðast um skóg með logandi kyndla að nóttu til, eða keppa sín á milli í bogfimi, spjótkasti og fleiri víkingaíþróttum, en það gerðist nú samt á víkinganámskeiði á Úlfljótsvatni um nýliðna helgi.
  Það var Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni sem stóð fyrir námskeiðinu, annað árið í röð. Þátttakendum var skipt upp í þrjár ættir sem öttu svo kappi sín á milli í ýmsum víkingaleikjum og -íþróttum. Auk þess lærðu skátarnir leðurvinnu að víkingasið, máluðu skjaldarmerki ættflokka sinna á skildi og sýndu sögu þeirra á leikrænan hátt á fjörugri kvöldvöku. Mátti þar sjá trjáhöggvandi landnámsmenn, mikla kappa sem féllu í valinn og ósvikna ást sem forðaði ættunum frá því að deyja út.

  „Það má kannski segja að þungamiðjan í námskeiðinu hafi verið bogfimin,“ segir Guðmundur Finnbogason sem gegndi stöðu jarls á námskeiðinu.

  „Þátttakendur fengu gott tækifæri til að kynnast bæði sveigbogum og langbogum og æfðu sig mikið í að skjóta á mark. Á sunnudeginum vorum við svo bæði með allsherjarþing þar sem fram fór keppni milli ættanna í bogfimi, sparkfimi og spjótkasti og svo enduðum við námskeiðið á því að krýna bogfimikempu Úlfljótsvatn 2014, eftir einstaklingskeppni.“
  Fyrir suma náði námskeiðið þó hámarki á laugardagskvöldinu þegar ættirnar héldu út í skóg með kyndla og áttu að reyna að komast yfir skildi hvorrar annarrar í æsilegum næturleik.

  Á námskeiðið voru skráðir 17 þátttakendur, en auk þeirra var fjöldi af aðstoðarfólki og leiðbeinendum sem lagði hönd á plóg. Gert er ráð fyrir að víkinganámskeiðin séu árlegur viðburður á Úlfljótsvatni, enda var ekki annað að heyra á þátttakendum þetta árið en að þá langaði að koma fljótt aftur.

  Benedikta vann einstaklingskeppni í bogfimi og hlaut verðlaunagrip úr höndum víkinga staðarins.

  Benedikta vann einstaklingskeppni í bogfimi og hlaut verðlaunagrip úr höndum víkinga staðarins.

  Jóhannes mundar bogann af ákveðni í allsherjarþinginu – garpakeppni ættflokkanna á námskeiðinu.

  Jóhannes mundar bogann af ákveðni í allsherjarþinginu – garpakeppni ættflokkanna á námskeiðinu.

  Ættflokkurinn Reykvíkingar skoraði flest stig á allsherjarþinginu, þar sem keppt var í spjótkasti, bogfimi og sparkfimi.
  Ættflokkurinn Reykvíkingar skoraði flest stig á allsherjarþinginu, þar sem keppt var í spjótkasti, bogfimi og sparkfimi.

   

  Kennarar og nemendur úr Lágafellsskóla settu óvenjulegt Íslandsmet í skólabúðunum á Úlfljótsvatni í síðustu viku. Metið fólst í sjálfsmyndatöku fyrir hópmynd, en alls voru teknar 80 sjálfsmyndir, eða „selfie“-myndir, sem síðan var raðað saman í eina hópmynd.

  „Við gerðum þetta í fjallgöngu á Úlfljótsvatnsfjall,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni. „Þetta var hress og öflugur hópur og veðrið var upp á sitt besta svo þau stilltu sér upp í einfalda röð og smelltu öll af einni sjálfsmynd. Með því að raða þeim saman í eina mynd sést röðin eins og hún var. Við erum viss um að þetta sé Íslandsmet, áttatíu „selfie“-myndir teknar við sama tækifæri og úr verður ein hópmynd.“

  Aðspurð segir Elín að sjálfsmyndatökur séu ekki fastur liður í dagskrá skólabúðanna. „Við erum voðalega lítið í slíku. Hinsvegar eru einkunnarorð skólabúðanna leikur, útivist, gleði, vinátta og áskoranir. Íslandsmetið féll ágætlega að þeim, enda aðallega til gamans gert þegar við tókum pásu í fjallgöngu. Það sást greinilega að sumir krakkanna hafa reynslu af slíkum myndatökum en við tókum þær skrefinu lengra og bjuggum til dálítið merkilega mynd úr til þess að gera hversdagslegri athöfn. Í raun er hér líka um listsköpun að ræða þar sem áttatíu listamenn vinna saman að einu verki. Kannski er það Íslandsmet líka?“

  Smelltu hér til að skoða „selfie“-hópmyndina.

  Til að stækka myndina gætir þú þurft að smella á hana aftur.